5.6.2008 | 22:25
Eina færa leiðin var farin
Mikið hefur verið bullað um hvort fella hafi átt þennan saklausa hvítabjörn eður ei, og heitar umræður skapast um að hægt hefði verið að þyrma lífi hans, með því t. d. að svæfa hann eða gefa honum deyfilyf.
Auðvitað hefði það verið mögulegt ef hægt hefði verið að vera í friði fyrir forvitnum áhorfendum sem dreif að úr báðum áttum eins og fram hefur komið í fréttum. Það eitt og sér gerði það hins vegar að verkum að vonlaust var að fresta því meir að aflífa dýrið.
Það er ekki hægt að ábyrgjast það að svona skepna taki ekki snögglega á rás í átt að vænlegu fórnarlambi úr hópi forvitinna áhorfenda og þá er ekki ólíklegt að ómögulegt hefði verið að skjóta á björninn af hættu á að hæfa hugsanlega manneskju sem þvælist fyrir í staðinn.
Þetta er ekkert gæludýr.
Það voru auðvitað mistök að loka ekki veginum beggja vegna Þverárfjalls strax og reyna að fá æti til að seðja skepnuna, en úr því sem komið var, var eina leiðin að aflífa dýrið snarlega eins og gert var.
Hvítabjarnarmál vekur athygli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
31.1.2008 | 15:33
Eðlileg viðbrögð
Leyfa reykingar í mótmælaskyni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.12.2007 | 22:49
Hvers vegna þurfa aldraðir að búa við lægri laun en aðrir?
Á íslandi býr fólk við það að vera skyldugt að leggja í lífeyrissjóð. Um það gilda ákveðnar reglur hvernig skipting milli hlutar launþega og vinnuveitanda skal vera. Í almenna lífeyrissjóðakerfinu er skiptingin þannig að hlutur launþega skal vera 4% af launum og hlutur vinnuveitanda skal vera 8%.
Nú er það þannig að þegar kemur að ellilífeyrisaldri dugir þetta ekki til að greiða full laun eins og þau hafa verið um ævina, heldur er um stórlækkun launa að ræða þegar fólk er hætt að vinna. Vitað mál er að aðsæður fólks eru mismunandi og getur það verið afar íþyngjandi fyrir sumt fólk að mæta þessum tekjumissi þó aðrir hafi náð að leggja fyrir varasjóð sem gerir þeim kleift að halda svipuðum mánaðartekjum og áður.
Ef skipulaginu væri breytt og framlög í sjóðina hækkað ofurlítið ætti það að duga til að greiða sömu laun eða svipuð og fólk hefur haft að jafnaði yfir ævina og ætla má að það mundi létta mörgum lífið sem ekki hafa náð að byggja upp varasjóð um ævina til að mæta þessu tekjutapi á elliárunum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.9.2007 | 20:25
Að kasta af sér vatni á almannafæri. Mannréttindi eða glæpur?
Að undanförnu hafa borist fréttir af því að fólk hafi verið beitt sektum fyrir það eitt að kasta af sér vatni á almannafæri.
Er hægt að banna fólki að míga ef ekkert salerni er nærri og þörfin er brýn? Er það ekki hluti af frumþörfunum að losa líkamann við þvag og saur.
Sem betur fer gengur fólki oftast betur að halda í sér ef það þarf að skíta en míga.
Á hinn bóginn má auðvitað segja að það sé afar hvimleitt ef menn míga nánast sér til gamans utan í mannvirki eða aðrar eigur annarra og má vel vera að hægt væri að sekta fyrir það.
Ef menn hinsvegar gæta alls velsæmis að öðru leyti en því að vera svo óheppnir að þurfa að míga án þess að eiga þess kost að komast á klósett og velja sér þá grasflöt eða tré til að taka við þessu þá er það nú varla annað en sjálfbjargarviðleitni frekar en láta það fara í buxurnar, enda tækju þær tæpast við nema litlu af magninu hitt færi hvort sem er niður til jarðarinnar, ja nema menn séu í stígvélum.
Það stenst varla að hægt sé að beita viðurlögum við þær aðstæður.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.9.2007 | 23:35
Íslandspóstur verði einkavæddur.
Sigurður Kári Kristjánsson hefur lýst þeirri skoðun sinni að Íslandspóstur skuli einkavæddur. Þykir honum ótækt að ríkisfyrirtæki seilist inn á markaði þar sem fyrirtæki í einkaeigu starfa.
Ég verð nú að segja að ekkert sé ég því til foráttu að ríkisrekið fyrirtæki starfi við hlið annarra fyrirtækja svo framarlega sem þetta ríkisfyrirtæki þarf að skila hagnaði og ekki sé brugðist við hallarekstri með því að greiða bara upp hallann með skattfé almennings. Þá eru aðilar jafnir og mega alveg keppa á þeim jafnréttisgrundvelli.
Það horfir svolítið annað við með Ríkisútvarpið þar sem fólk er neytt til að greiða afnotagjöld hvort sem því líkar betur eða verr en gefa svo fyrirtækjum eins og Stöð 2 leyfi til reksturs sjónvarps við hliðina í samkeppni við ríkisfyrirtækið sem hefur alltaf þessar forskotstekjur á alla aðra aðila í þessari starfsemi. Það er óheilbrigt í meira lagi. Þess vegna þarf að einkavæða ríkisútvarpið sem fyrst.
Skynsamlegt væri e.t.v. að halda eftir rás 1 og hafa hana svona menningarrás eins og hún hefur lengi verið og fella það gjald sem þyrfti til reksturs hennar inn í fjárlögin þannig að það verði bara partur af skattheimtunni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.9.2007 | 22:05
Stofnfrumuframleiðsla
Heyrði merkilega frétt í morgun þar sem sagt var frá því að hugmyndin væri að gefa vísindamönnum í Bretlandi að mig minnir, leyfi til að framleiða stofnfrumur með því að sameina sæði manna og egg úr dýrum. Þetta ætti að leyfa í lækningaskyni.
Hingað til hef ég bara heyrt um þann möguleika að framleiða stofnfrumur með því að sameina sæði og egg mannskepnunnar. Sitt sýnist hverjum í þeim efnum. Mér þykir það þó öllu saklausara en ef blanda á dýrum inn í myndina.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.9.2007 | 22:15
Vangavelta um Orkuveituna.
Er ávinningur fólginn í að breyta Orkuveitu Reykjavíkur sf. í hlutafélag?
Meginrökin fyrir því að breyta Orkuveitunni í hlutafélag, er að þá losni Reykjavíkurborg undan ábyrgðum af lánum hennar. Líklega þurfa þó að líða allmörg ár áður en þau lán eru uppgreidd sem Reykjavíkurborg er nú í ábyrgð fyrir. Einnig má velta fyrir sér hver það verður sem gengur í ábyrgð fyrir nýjum lánum OR ef ekki fylgir sala til annars aðila á eftir, nema þá fyrir mun lakari lánakjör ef félagið tekur lán með sjálfskuldarábyrgð.
Hins vegar má sjá sparnað í rekstri ef tekjuskattur verður 18% í stað 26% hjá sameignarfélagi. Sagt hefur verið að sá sparnaður geti numið u. þ. b. 800 milljónum á ári. Dágóð upphæð vissulega en ef skuldirnar eru 72 milljarðar eins og sagt hefur verið þá er spurning hversu langt þessar 800 milljónir hrökkva til að standa straum af dýrari lánum með breyttu fyrirkomulagi.
Hugsanlega er borginni þó nauðugur einn kostur í stöðunni ef reksturinn eins og hann er nú stangast á við samninga um evrópska efnahagssvæðið.
Miðað við það sem á undan er gengið má búast við að ekki líði langur tími áður en búið verður að einkavæða félagið. Það er svo matsatriði hvort það er gott eða slæmt.
Oft hefur verið klifað á því að Orkuveitan sé vel rekið fyrirtæki en það er sjaldnar nefnt í því samhengi að burði sína fékk það frá íbúunum sjálfum sem greiddu þegjandi það gjald sem upp var sett fyrir orku frá þessu fyrirtæki og hafði ekki völ á öðru.
Verðlagningin var auðvitað hærri en þurfti til að ná endum saman, það sýnir núverandi staða fyrirtækisins glögglega.
Því má svo ekki gleyma að auðvitað koma íbúarnir til með að njóta ávaxtanna þ. e. þegar fyrirtækið verður selt þá rennur andvirði þess í borgarsjóð sem er sameiginleg eign íbúanna. Þá er bara að vona að verðlagningin verði þannig að fyrirtækið verði selt en ekki "gefið".
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.8.2007 | 00:21
6 mánaða afmæli
25.8.2007
Byrjuðum daginn á að þvo þvott. Fórum svo til Áslaugar og Krissa í 6 mánaða afmæli Sesselju Fanneyjar. Dáðumst þar að undrinu, þessu fullkomna barni sem þroskast svo hratt að við amman og platafinn höfum ekki við að fylgjast með. Fórum svo til Steinu og Palla á eftir. Í kvöld komu í heimsókn Kristín hans Guðna bróður og dætur þeirra tvær Jóhanna Maj og Lisa Marie og með í för var einnig Anka fyrrverandi vinnukona þeirra. Áttum góða kvöldstund þar sem við fórum m. a. yfir myndir af Hornstrandaferð okkar Sesselju í sumar.
Sá á mbl.is að Aron Pálmi er að koma til landsins á morgun. Mikið held ég að aðstandendur hans og hann sjálfur hljóti að vera fegin að hann skuli vera laus úr prísundinni þarna úti. Alveg hræðilegt mál og sorglegt. Býð hann velkominn til landsins og vona að honum gangi vel að byggja sig upp og ná að skapa sér farsæla framtíð hér.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.8.2007 | 22:17
Kominn með bloggsíðu
Þá er ég búinn að skrá mig á bloggið. Ekki geri ég ráð fyrir að skrifa reglulega hér. Mun ég frekar skrifa þegar mér liggur eitthvað á hjarta eða langar að varpa einhverjum sjónarmiðum fram til að kanna viðbrögð við þeim. Kannske verður þetta svona dagbók sem ég skrifa í þegar ég má vera að og kem því við vegna annarra verkefna.
Bloggar | Breytt 26.8.2007 kl. 00:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)